Mikilvægt er að brugðist sé skjótt við ef vart verður við óæskilega hegðun á borð við einelti, áreitni og ofbeldis sem og vegna annarrar óæskilegrar hegðunar sem oft getur leitt til eineltis, áreitni eða ofbeldis sé ekkert að gert. Fái slík óæskileg hegðun að líðast á vinnustað getur það valdið miklum skaða fyrir starfsfólkið og fyrirtækið. Ekki er síður mikilvægt að senda skýr skilaboð og vinna að forvörnum til að koma í veg fyrir óæskilega hegðun á vinnustað.
Hlutverk stjórnenda
Stjórnendur gegna mikilvægu hlutverki í að vinna gegn alvarlegum vandamálum líkt og einelti og áreitni.
- vera viðbúnir að bregðast við ef slík mál koma upp
- sýna gott fordæmi, hvetja til opinna samskipta, gera áætlun um forvarnir og viðbrögð, veita upplýsingar og bregðast við aðstæðum sem upp koma
- skoða ábendingar og kvartanir frá starfsfólki með varfærni og afvirðingu, ásamt því að vera sýnilegir og styðjandi
Lög nr. 46/1980 innihalda reglugerð sem kveður á um skyldu atvinnurekanda til að gera sérstakt áhættumat á áhættuþáttum eineltis, kynferðislegrar áreitni, kynbundinnar áreitni og ofbeldis á vinnustaðnum og í kjölfarið búa til stefnu og viðbragðsáætlun sem kynna á sérstaklega fyrir starfsfólki. Viðbragðsáætlun felur í sér hvernig starfsfólk getur tilkynnt um óæskilega hegðun og hvaða ferli þá fer í gang.
EKKO þjónusta Attentus
Attentus er viðurkenndur þjónustuaðili í vinnuvernd frá Vinnueftirlitinu og tekur að sér úttektir á kvörtunum vegna meints eineltis/áreitni/ofbeldi á vinnustað. Í úttekt er unnið að því að leggja mat á kvörtun og hvort hún falli undir skilgreiningu reglugerðar um einelti/áreitni/ofbeldi á vinnustöðum. Rætt er við aðila málsins og aðra sem málinu kunna að tengjast. Skýrslu með niðurstöðum og tillögum að aðgerðum er skilað til verkkaupa.
EKKO tilkynningagátt Attentus
Attentus býður fyrirtækjum og stofnunum upp á stuðning við móttöku tilkynninga eða kvartana starfsfólks um slíka hegðun á vinnustaðnum. Með tilkynningagátt Attentus getur starfsfólk sent inn tilkynningu eða ábendingu um EKKO hegðun á vinnustaðnum og fengið hlutlausa ráðgjöf sérfræðinga í EKKO teymi Attentus sem koma málum í viðeigandi farveg.
Skilgreining á EKKO
Einelti
Einelti er síendurtekin hegðun sem almennt er til þess fallin að valda vanlíðan hjá þeim sem fyrir henni verður, svo sem að gera lítið úr, móðga, særa eða ógna viðkomandi eða að valda honum ótta. Skoðanaágreiningur eða ágreiningur vegna ólíkra hagsmuna fellur ekki hér undir.
Kynferðisleg áreitni
Kynferðisleg áreitni er hvers kyns kynferðisleg hegðun sem er í óþökk þess sem fyrir henni verður og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi, einkum þegar hegðunin leiðir til ógnandi, fjandsamlegra, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi aðstæðna. Hegðunin getur verið orðbundin, táknræn og/eða líkamleg.
Kynbundin áreitni
Kynbundin áreitni er hegðun sem tengist kyni þess sem fyrir henni verður, er í óþökk viðkomandi og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi og skapa aðstæður sem eru ógnandi, fjandsamlegar, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi fyrir viðkomandi.
Ofbeldi
Ofbeldi er hvers kyns hegðun sem leiðir til, eða gæti leitt til, líkamlegs eða sálræns skaða eða þjáninga þess sem fyrir henni verður, einnig hótun um slíkt, þvingun eða handahófskennda sviptingu frelsis.