EFST Á BAUGI

Viðbragðsáætlun vegna heimavinnu.

Nýjar áskoranir blasa við

Nýjar áskoranir blasa við stjórnendum um þessar mundir. Margir foreldrar hafa þurft að vera heima vegna verkfalla starfsfólks á leikskólum og ekki getað mætt til vinnu. Að auki er nokkur fjöldi fólks í sóttkví/heimaveru þessa dagana vegna COVID 19 veirunnar.

Ráðgjafar Attentus hafa veitt vinnustöðum og stjórnendum ráðleggingar um hvernig sé best að bregðast við því þegar starfsfólk getur ekki sótt vinnu vegna þess að börnin eru heima eða ef starfsfólk er í sóttkví. Hér eru helstu atriðin sem huga þarf að.

Gerið viðbragðsáætlun

Mörg fyrirtæki hafa stillt upp viðbragðsáætlun til að mæta því ef margir starfsmenn veikjast/lenda í sóttkví. Nú er rétti tíminn til að greina lykilþætti/lykilstörf sem ekki mega stöðvast í starfseminni og huga að því hvernig er hægt að sinna mikilvægum verkefnum, þ.m.t. greiðslu reikninga og launa. Mikilvægt er að yfirfara heimatengingar starfsfólks og tryggja að slíkar tengingar virki hjá því starfsfólki sem þarf að sinna lykilhlutverkum. Huga þarf líka að þjálfun starfsfólks, sérstaklega starfsfólks í þjónustu og í móttöku. Regluleg upplýsingamiðlun þarf að fara fram og taka þarf afstöðu til vinnuferða erlendis sem búið var að ákveða.

Ræðið saman um vinnu starfsfólks sem þarf að vera heima í sóttkví eða vegna lokunar skóla/ leikskóla

Margir geta unnið heima og ef það er mögulegt hvetjum við stjórnendur að vera í daglegum samskiptum við þá sem vinna heima, sérstaklega ef um sóttkví er að ræða. Gott er að stjórnandi og starfsmaður ræði saman um það hvaða verkefnum hægt er að sinna heima, hvort sem starfsmaður er heima í sóttkví eða heima vegna lokunar skóla/leikskóla.

Starfsfólk sem finnur fyrir flensueinkennum er hvatt til að mæta ekki til vinnu og fara eftir leiðbeiningum heilbrigðisyfirvalda.  

Ráðgjafar Attentus eru með fyrirmyndir af reglum og leiðbeiningum vegna þessa og aðstoða við slíka vinnu, sé þess óskað.

Skráðu þig á póstlistann