Nýir eigendur og ný sálfræðiþjónusta hjá Attentus

Ástríður Þórey Jónsdóttir og Helga Lára Haarde hafa bæst í eigendahóp Attentus. Fyrirtækið kynnir á sama tíma nýja sálfræðiþjónustu sem miðuð er að atvinnulífinu.

Attentus kynnir nýja sálfræðiþjónustu þar sem vinnustöðum gefst kostur á sálfræðiþjónustu fyrir starfsfólk sitt þar sem stutt bið eftir þjónustu er tryggð. Með þessu vill Attentus mæta vaxandi eftirspurn eftir sálfræðiþjónustu á vinnustöðum en fjölmargir vinnustaðir eru farnir að forgangsraða andlegri heilsu starfsfólks með meira afgerandi hætti. Auk hefðbundinna meðferðarviðtala munu sálfræðingar einnig sinna handleiðslu við stjórnendur, sáttamiðlun og samskiptavanda á vinnustöðum, auk þess að bjóða upp sálfélagslegt áhættumat á vinnustöðum auk ráðgjafar og úttekta í EKKO málum.

Ástríður Þórey hefur starfað hjá Attentus frá árinu 2022. Hún býr yfir mikilli þekkingu á stjórnsýslurétti, félagarétti, vinnurétti og mannauðsmálum. Hjá Attentus hefur hún sinnt lögfræðiverkefnum á sviði vinnuréttar, ráðgjöf á sviði ráðninga og starfsloka, erfiðum starfsmannamálum, EKKO úttektum og mannauðsráðgjöf.   Hún er lögfræðingur að mennt, en hún lauk lagaprófi frá Háskólanum í Reykjavík og er með BA gráðu í frönsku frá Háskóla Íslands.

Helga Lára hefur starfað hjá Attentus frá árinu 2017 og hefur sinnt mannauðsráðgjöf, viðhorfskönnunum, stjórnendamælingum, erfiðum starfsmannamálum, EKKO ráðgjöf og sálfræðiráðgjöf. Auk þess hefur Helga haldið fjölda fyrirlestra um mannauðsmál og sálfræðitengd málefni. Helga er klínískur sálfræðingur með MS gráðu frá Háskólanum í Reykjavík. Helga vinnur helst með vanda á borð við kulnun, fullkomnunaráráttu, kvíða, lágt sjálfsmat, félagskvíða og samskiptavanda. Hún hefur einnig MS gráðu í félags- og vinnusálfræði frá Háskóla Íslands ásamt BS gráðu í sálfræði.

Ingunn Björk Vilhjálmsdóttir, stjórnarformaður Attentus:Það er mikill fengur fyrir Attentus af því að fá Ástríði og Helgu inn í hóp eigenda félagsins. Ástríður mun leiða lögfræðiteymi Attentus og Helga mun leiða nýja sálfræðiþjónustu Attentus sem miðuð er að atvinnulífinu og mun nýtast vel við áframhaldandi uppbyggingu fyrirtækisins. Við þökkum Ingu Björgu fyrir þátttöku í stofnun Attentus og samstarfið síðustu 17 árin. Við óskum henni góðs gengis á nýjum vettvangi.