Laun stjórna á Íslandi 2024 PwC og Attentus

Laun stjórnarmanna og aldur og kyn stjórnarmanna

PwC og Attentus hafa tekið saman niðurstöður um launakjör stjórna í íslenskum fyrirtækjum. Samantektin veitir innsýn í launagreiðslur stjórnarformanna og almennra stjórnarmanna og skipan í stjórnir eftir kyni og aldri eftir tegundum fyrirtækja.

Laun stjórnarformanna í félögum sem könnunin nær til eru á bilinu þrjár til 20 milljónir króna á ári. Meðaltal og miðgildi árslauna stjórnarmanna og stjórnarformanna voru skoðuð og kom í ljós munur á launum eftir tegund fyrirtækja. Ekki var unnt að skoða mun á stjórnarlaunum eftir stærð fyrirtækja eða eftir atvinnugrein, en slíkt er unnt að greina þegar fleiri fyrirtæki bætast við úrtakið og ítarlegri gögnum safnað frá fyrirtækjunum sjálfum.

Skoðað var kynjahlutfall stjórnarmanna og aldursdreifing stjórnarmanna og forstjóra. Athygli vekur að konur gegna stjórnarformennsku í 70% tilvika hjá lífeyrissjóðum, í 60% tilvika hjá ríkisfyrirtækjum en einungis 12,5% stjórnarformanna skráðra félaga eru konur. Ekki kemur á óvart að flestir stjórnarmenn í þeim félögum sem skoðuð voru eru eldri en 50 ára og einungis 4,5% stjórnarmanna eru yngri en 40 ára.

Gögnin eru byggð upplýsingum úr ársskýrslum og öðrum opinberum gögnum frá 41 fyrirtæki (25 skráð félög, 6 ríkisfyrirtæki og 10 lífeyrissjóðir). Núverandi samantekt er fyrsti hluti af veglegri skýrslu sem PwC og Attentus munu birta haustið 2025.

Allar nánari upplýsingar veita Drífa Sigurðardóttir, drifa@attentus.is, og Jóhann Fleckenstein, johann@attentus.is.

Skýrsluna má nálgast í linknum hér fyrir neðan

Laun stjórna á Íslandi – PwC og Attentus