Nýir ráðgjafar hjá Attentus

Tryggvi Þór Jóhannsson og Hildur Baldvinsdóttir hafa bæst í ráðgjafahóp Attentus

Tryggvi Þór Jóhannsson og Hildur Baldvinsdóttir hafa bæst í ráðgjafahóp Attentus og munu þannig styðja við nýja sálfræðiþjónustu sem miðuð er að atvinnulífinu.

Hildur er klínískur sálfræðingur með MS gráðu frá Háskólanum í Reykjavík, auk þess að hafa lokið meistaragráðu í mannauðsstjórnun og vinnusálfræði frá sama skóla. Hún hefur unnið sem mannauðsráðgjafi hjá Isavia og sem sálfræðingur í stuðnings- og ráðgjafateymi starfsfólks Landspítala, Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins og á SÓL sálfræði- og læknisþjónustu.

Í starfi sínu sinnir Hildur greiningu og meðferð á sálrænum vanda hjá fullorðnum og notar aðferðir eins og „Hugræna atferlismeðferð“ (HAM) og „Acceptance and Commitment therapy“ (ACT). Hildur hefur sótt námskeið og vinnustofur í ACT og tekið þátt í vinnustofu um staðreyndarannsóknir í EKKO málum.

Tryggvi Þór er lögfræðingur með BA og meistarapróf frá Háskóla Íslands. Eftir útskrift hóf hann störf hjá VÍS. Þaðan lá leiðin til Útlendingastofnunar þar sem hann starfaði sem lögfræðingur á verndarsviði stofnunarinnar.

Síðast starfaði Tryggvi hjá Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála sem teymisstjóri rekstrarleyfa og kom í störfum sínum að mótun og uppbyggingu nýrrar stofnunar. Þá lauk Tryggvi diplómu í opinberri stjórnsýslu árið 2021.

„Það er mikill fengur fyrir Attentus af því að fá Hildi og Tryggva inn í hópinn og styðja þannig við áframhaldandi vöxt félagsins á sviði nýrrar sálfræðiþjónustu og aukinnar lögfræðiþjónustu tengdri mannauðsmálum,“ segir Ingunn Björk Vilhjálmsdóttir, stjórnarformaður Attentus.

Sjá frétt