Fjölmenning á vinnustaðnum – Kraftur inngildingar

Manneskjan sem félagsvera

Að tilheyra hópum er stór hluti af daglegu lífi manneskjunnar. Þörf okkar til að tilheyra er mismunandi milli einstaklinga, t.d.hvaða hópum við viljum tilheyra og hversu sterkt við viljum tengjast hverjum hópi. En hvers vegna er þessi þörf svona sterk?

Frá örófi alda hefur manneskjan lifað í hópum. Ólík hlutverk sem sköpuðust innan hópa veittu manneskjunni bæði líkamlega og tilfinningalega vernd,höfðu áhrif á mótun sjálfsmyndar og líðan. Í fornum samfélögum var lífsnauðsynlegt að tilheyra hópi til að upplifa öryggi, nærast, huga að ungviðum og verjast óvinum. Segja má að ótti við höfnun úr hópnum hafi í raun hjálpað okkur að lifa af, bæði fyrir einstaklinginn og fyrir okkur sem tegund.

Í dag flokkum við okkur í hópa á ýmsan hátt, við erum í hlaupahópum, lesklúbbum, íþróttafélögum og kennum okkur við ákveðin hverfi eða landshluta. Margir þessara hópa myndast í æsku eða í gegnum skólagöngu okkar, þar sem við kynnumst nýju fólki og byggjum upp tengslanetið okkar.

Innflytjendur hafa ekki þetta sama bakland sem gerir þeim erfiðara fyrir að mynda tengslanet. Í sumum tilfellum er vinnustaðurinn jafnvel eini snertiflötur innflytjenda við íslenskt samfélag.  Því er mikilvægt að velta fyrir sér, hversu stórt hlutverk vinnustaðir spila í myndun nútíma samfélags?

Fjölmenning eða margmenning

Fjölmenning og fjölmenningasamfélag eru hugtök sem við heyrum oft, en umræðan um þau er oft neikvæð. Fjölmenningasamfélag vísar til samfélags þar sem mismunandi menningar og þjóðerni ekki aðeins búa saman heldur deila einnig menningu, gildum og hefðum. Þetta skapar dýrmæt tengsl milli ólíkra hópa, sem eykur skilning og samkennd og  hefur  blómstrandi áhrif á vinnuumhverfið. Hinsvegar þegar við finnum fyrir höfnun eða við fáum minnstu vísbendingu um að við tilheyrum ekki, getur það leitt til óttaviðbragða hjá okkur. Hver hefur ekki hugsað: „af hverju var mér ekki boðið?“ eftir að hafa séð myndir af vinum á samfélagsmiðlum? Þrátt fyrir að það sé okkur ekki lífsnauðsynlegt að tilheyra ákveðnum hópi getur höfnun leitt til óþæginda sem segja má að sé ákveðin arfleið frá forðfeðrum okkar.  Að upplifa höfnun getur þannig stuðlað að myndun margmenningasamfélags, þar sem mismunandi menningarhópar búa saman, oft án mikillar samveru eða tengsla. Þetta getur leitt til einangrunar hópa og haft neikvæðar afleiðingar fyrir vinnuumhverfið og samfélagið í heild.

Inngilding á vinnustaðnum

Með því að  hafa  fjölbreytta og fjölmenningarlega  starfsmannahópa þurfa fyrirtæki að huga að samfélagslegri ábyrgð sinni og velta fyrir sér hverning er best stuðla að inngildingu. Við erum ekki aðeins að skapa vinnustaðamenningu heldur einnig að stuðla að betra samfélagi.

En geta fyrirtæki gert eitthvað til að stuðla að inngildingu erlendra starfsmanna?

  • Fyrst og fremst er fræðsla nauðsynleg. Það er mikilvægt að fræða bæði starfsmenn og stjórnendur um inngildingu til að koma í veg fyrir ómeðvitaða fordóma og til að auka vitund. Einnig er gagnlegt að nota fræðslu til að kynna Ísland og íslenskt vinnuumhverfi fyrir erlendu starfsfólki okkar.
  • Íslenskukennsla og hvatning til að læra tungumálið er einnig mikilvæg.
  • Að búa til stuðningshópa á vinnustöðum getur verið áhrifaríkt. Með því að stofna hópa þar sem minnihlutahópar geta rætt sameinleg áhugamál, styrkjum við tengslanetið og stuðlum að betri samvinnu. Þessir hópar geta unnið að sameinlegum verkefnum sem stuðla að stefnu  fyrirtæksins.
  • Mikilvægt er að huga að okkar vinnuumhverfi. Hvernig líður okkar starfsfólki, er jafnt aðgengi fyrir alla og hafa allir sömu réttindi?
  • Mikilvægt er að athuga viðbrögð starfsmanna og hlusta á tillögur þeirra að úrbótum. Ekki er síður mikilvægt að taka mark á þeim tillögum og bregðast við.
  • Hægt er að skoða inngildingastefnu og jafnvel ráða inngildingastjóra sem vinnur ásamt mannauðsstjóra í verkefnum til að tryggja framkvæmd stefnunnar.
  • Einnig er gott að rýna í hvort það sé innri stéttaskipting á vinnustaðnum og grípa til aðgerða.
  • Síðast en ekki síst er nauðsynlegt að spyrja okkur sjálf hvernig við lítum á fólkið sem við vinnum með, eru þau samstarfsfélagar eða bara vinnuafl?

Að skapa heilbrigðan vinnustað er í okkar  höndum, að skapa andrúmsloft þar sem öllu starfsfólki líður vel og finni að þau tilheyri, hafi áhrif og upplifi stolt. Miðað við þjóðarumræðuna lítur út fyrir að við séum að stefna í margmenningu frekar en fjölmenningu og því er mikilvægt að líta inn á við og athuga þó að ekki sé hægt að fara til baka og breyta upphafinu, getum við byrjað í dag og haft áhrif á hvernig málin þróast.

Í því samhengi má vitna í orð C.S. Lewis “You can’t go back and change the beginning, but you can start where you are and change the ending”.

Hvernig vinnustað ætlar þú að skapa?

Höfundur greinarinnar er Monika K. Waleszczynska, ráðgjafi