EFST Á BAUGI

Fjarskiptaálag

Nýverið birtist grein á mbl.is með fyrisögninni „Fjarvinnustarfsmenn vinna lengur og meira en aðrir“. Þar var vitnað í umsögn frá ASÍ þar sem fram kemur að „techno stress“ sé sívaxandi vandamál. Mér var þá hugsað til heimildarritgerðar sem ég og samnemandi minn gerðum saman í Haskólanum í Árósum vorið 2021. Þar var fjallað um sambærilegt hugtak „Telepressure“ hér eftir nefnt fjarskipta álag. Það er kannski ekki þekkt hugtak en margir gætu hinsvegar tengt mikið við það. Skilgreiningin á fjarskipta álagi eru allir þeir þættir tengdir starfinu okkar sem ýta undir álag á samskipti í gegnum fjarskiptabúnað (síma, tölvupóst og fleira).

Hvaða þættir eru það?

Það er annars vegar upplýsingaflóð í gegnum tölvupóst og síma (símtöl, sms, Facebook, Messenger  og fleira). Hinsvegar er það þau samfélagslegu viðmið sem eru til staðar. Samfélagsleg viðmið eru meðal annars þær kröfur sem samstarfsfólk gerir á hvort annað í samskiptum gegnum tölvupóst, síma eða aðrar fjarskipta leiðir. Þegar samstarfsaðili eða stjórnandi gerir ráð fyrir því að fá eins skjót svör við tölvupósti eða símtali og við samskipti augliti til auglitis.

Skil milli vinnu og einkalífs

Skilin milli vinnu og einkalífs eru líka stór þáttur sem gæti haft áhrif á upplifun álags. Ef fyrirtæki leyfa starfsfólki ekki að skilja þarna á milli eru miklar líkur á að þessi skil verði óskýr og valdi álagi. Fyrirtæki geta gert ýmislegt til þess að sporna við þessu álagi eða streitu sem getur myndast. Eitt af því væri að leyfa starfsfólkinu að eiga formlegan endi á vinnudeginum sínum. Fyrirtæki hafa verið að breyta frá hefðbundnum vinnudegi með stimpilklukku, þar sem starfsfólk stimplar sig inn á ákveðnum tíma og út 7-8 klukkutímum seinna.
Það er auðvitað margt jákvætt við þessa breytingu og verður ekki farið yfir það hér. Samhliða tækniþróun, svo sem með tilkomu snjallsíma, hefur óformlegum vinnu tímum hinsvegar fjölgað. Starfsfólk á það til að vera að svara tölvupóstum á kvöldin eða um helgar (Derks and Bakker, 2014). Þetta hefur gert starfsfólkinu erfiðara með að halda fjarlægð frá vinnu á tímum þar sem formlegri vinnu líkur (Jarvenpaa and Lang, 2005). Með formlegum endi á vinnudeginum, þar sem starfsfólk þarf ekki að eiga í hættu á að þurfa að svara tölvupóstum við kvöldmatinn eða seint á kvöldin, nær starfsfólkið ákveðinni endurheimt fyrir næsta dag. Rannsóknir hafa sýnt að þessi endurheimt sé, til lengri tíma litið, jákvæð fyrir vinnuframlegð (Sonnentag, 2003). Þó svo að starfsfólki finnist það vera að sýna meiri framleiðni með hröðum svörum í tölvupóstum eða síma gæti til lengri tíma litið  afleiðingin þess gert starfsfólkið afkasta minna (Barber & Santuzzi, 2015). Þá kemur einnig fram að starfsfólk, sem upplifir mikið fjarskipta álag, hefur að meðaltali styttri svörunartíma á tölvupóstum. Það styður við þá kenningu að samfélagslegu viðmiðin um svörunartíma ýti undir fjarskipta álag.

Áhrif samskiptamiðla á álagið

Þá er einnig áhugavert að skoða með tilkomu samfélagsmiðla hvort og þá hvernig fjarskipta álag hafi áhrif á einstaklinginn. Rannsókn var gerð á háskólastúdentum, sem unnu meðfram námi, hvernig álagið hafði áhrif á þau. Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að einstaklingur sem upplifði mikið fjarskipta álag upplifði einnig mikinn þrýsting á að svara skilaboðum á samfélagsmiðlum í einkalífinu. Tekið skal fram að ekki var marktækur munur á háskólanemum sem voru ekki að vinna með náminu og þeim sem voru að vinna með náminu. Með öðrum orðum, fjarskipta álagið má rekja til samfélagslegra viðmiða og flóði upplýsinga í gegnum fjarskiptabúnað óháð vinnu með námi. Niðurstöður rannsóknar bentu þó til að fjarskipta álag hjá nemendum, sem störfuðu með námi, mátti tengja beint við stress og kulnun, annað en hjá nemendum sem unnu ekki með náminu (Barber & Santuzzi, 2017).

Fjarskipta álag

Rannsóknir hafa sýnt að með hraðri þróun tækninnar og öllum þeim nýjungum sem snjallsíminn bíður upp á eru ákveðnir hlutir sem fyrirtæki þurfa að huga að svo þróunin verði ekki neikvæð. Segja má að samfélagsleg gildi hafi breyst mikið og hraðinn í samfélaginu geri kröfur um að svara skilaboðum hvar og hvenær sem er. Fjarskipta álag er hugtak sem fyrirtæki ættu að hafa í huga til þess að sporna við streitu starfsfólks og kulnun í starfi.

Grein mbl.is: https://www.mbl.is/frettir/innlent/2022/10/24/fjarvinnustarfsmenn_vinna_lengur_og_meira_en_adrir/

Umsögn ASÍ: https://www.althingi.is/altext/erindi/153/153-192.pdf

Skráðu þig á póstlistann